Þið vitið þegar maður þarf að prófa nýjar samsetningar, liti, eða munstur.
Og byrjar á nýju og nýju verkefni og hefur svo ekki
Og hálfkláruð verkefni eru í körfum og kössum í öllum hornum.
Og eru auðvitað stundum tekin upp ... en til þess eins að vera strax sett á sama stað aftur.
Og ég hef fögur fyrirheit og set mér markmið að vera eins og sumir sem eru staðfastir og hafa aldrei nema eitt stykki á prjónunum í einu.
En stundum er eins og allt hrökkvi í gírinn og þá nýtur maður góðs af því að hafa haft margt í gangi.
Og á nokkrum kvöldstundum spretta fram peysur, sjöl eða önnur fínheit..
..og stakir sokkar eða vettlingar eignast félaga og verða par.
Hér er dæmi um litla sokka úr afgöngum af óræðum uppruna.
Ég átti til nokkra metra af sokkagarni í ljósum lit og slatta af sprengdu vínrauðu. Vínrauði Textíl-garns liturinn, Cranberry, passaði fullkomlega með og var nauðsynlegur til að drýgja hina.
Til minnis:
Afgangasokkar á lítil kríli.
Prjónar nr. 4,5.
Fitjið upp 32 lykkjur með tvöföldu garni (vínrautt sokkagarn og Cranberry Textíl-garn) og prjónið stroff 6 umferðir. Prjónið rendur 12 umferðir. Þá eru prjónaðar 16 lykkjur með nýju bandi (í öðrum lit - sbr. þumall). Haldið áfram að prjóna rendur þar til komið er að úrtöku fyrir tá (20 umferðir). Takið úr í annarri hverri umferð í byrjun 1. og 3. prjóns og í lok 2. og 4. prjóns - þegar 8 lykkjur eru eftir dragið þá band í gegnum lykkjurnar. Þá er það hællinn. Takið upp lykkjurnar sem myndast þegar aukabandið er tekið (samtals 32 lykkjur) og prjónið hælinn með eins úrtöku og er á tá.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli