Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

þriðjudagur, 20. september 2011

Þrílitt sjal

Þó veðrið sé fallegt þessa stundina  þá er kuldi í loftinu og þá er fátt betra en að sveipa um sig glæsilegu heimaprjónuðu sjali.

(Og það er skrítið að þó ég eigi fullt af klútum, treflum og sjölum þá fyllist ég alltaf þörf fyrir nýtt sjal á haustin. Kannski í nýjum lit eða úr öðruvísi garni eða þá að ég þarft endilega að prófa nýtt mynstur.)

Og þá er tilvalið að taka upp prjónana, velja garn og koma sér vel fyrir í sófanum. 

Og ekki er verra ef  uppskriftin er einföld - svona 'horft á sjónvarp uppskrift'.

Enn leita ég í smiðju handavinnusnillinganna í kringum mig, með uppskrift að einföldu sjali.

Til minnis

Textíl-garn SuperSoft: 1 dokka í hverjum þessara lita Ecru, Svart og Crocus, samtals 130-140 gr.
Hringprjónar nr. 4.5

Fitjið upp 401 lykkju úr einföldu garni og prjónið eina umferð. 
Gott er að setja prjónamerki sitthvoru megin við miðjulykkjuna - til að merkja úrtöku betur. Þá eru prjónaðar 200 lykkjur, setjið prjónamerki, 1 lykkja, setjið prjónamerki, og svo er prjónað út prjóninn.

Í næstu umferð er tekið úr fjórum sinnum. 
Prjónaðar eru tvær lykkjur (jaðarlykkjur) í byrjun prjóns og svo er tekið úr með því að prjóna saman næstu tvær lykkjur. 
Takið saman tvær lykkjur hvoru megin við miðjulykkjuna
og svo er úrtaka í lok prjóns, þegar fjórar lykkjur eru eftir þá eru prjónaðar tvær lykkjur saman og svo eru jaðarlykkjurnar tvær prjónaðar.

Nú eru prjónaðar til skiptis umferð (án úrtöku) og umferð með úrtöku. Lykkjunum fækkar því um 4 lykkjur í annarri hverri umferð.

Prjónið rendur, eins og ykkur lystir. Ýmist breiðar eða mjóar.
Til að ranga verði eins og rétta og gera litaskipti fallegri er hægt að prjóna gatamunstur út prjóninn þannig: prjóna tvær lykkjur saman og slá upp á prjóninn, gert eins út allan prjóninn.
Þetta má sjá á sjalinu hér fyrir neðan.


sunnudagur, 18. september 2011

Ehm - hóst, hóst - ný garnsending

 Það er komið haust og verkefnin breytast.

Það er farið að dimma á kvöldin.
Skólarnir eru byrjaðir.
Prjónarnir eru dregnir fram
og alls kyns klúbbastarf er að fara af stað

Ég hef fyllt á garnlagerinn 
og undanfarna daga hefur yfirvindari heimilisins setið við 
og undið og undið.

Hér er því allt fullt af dokkum
í yfir 40 litum sem eru hver öðrum fallegri.  
Og ég bíð spennt eftir því að sýna þá.
Endilega hafið samband ef þið viljið fá kynningu.