Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Þæfðir vettlingar


 Eftir ótrúlega milt og gott haust er aðeins farið að kólna og í morgun var hvít jörð þegar ég vaknaði.

 Og auðvitað var ískalt að skafa af bílrúðunum...
.... nema fyrir þá sem eiga þykka og mjúka þæfða vettlinga.


Þæfingin gerir vettlingana (eða annað sem þæft er) þéttari og þar með hlýrri og sterkari.

 Við þæfinguna minnka vettlingarnir - og í sumum tilfellum allt of mikið - (ekki spyrja hvernig ég veit það)
 þannig að gera þarf ráð fyrir því þegar prjónað er. 

Mín reynsla er að því lausar sem prjónað er - (það er því stærri prjónar sem eru notaðir miðað við grófleika garns) - því meiri þæfing. 

 Hægt er að þæfa vettlingana í höndum (þá þarf heitt vatn og sápu - og  svo er bara að nudda og nudda), en einnig er hægt að þæfa í þvottavél.  Þá er betra að fara hægt í sakirnar, og finna hvernig vélin vinnur og byrja á stuttu 40° prógrammi.

 Eftir þæfinguna er svo tilvalið að æfa sig í útsaumi og láta listrænu hæfileikana njóta sín.

Til minnis:
Uppskrift af vettlingum

Textil-garn SuperSoft ca 50 gr í vettlingapar (ath. sumir nota aðeins meira)
5 sokkaprjónar nr. 5,5

Fitjað er  upp 32 lykkjur (úlnliður), og aukið í 36 á hendi.

þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Nærbolur á nýfætt

Hún Unnur prjónaði þennan nærbol á litla barnabarnið sitt, í stærðinni 'rétt nýfætt'.

Bolurinn er með fallegu berustykki, með einföldu gatamunstri og er afskaplega fljótprjónaður.
Og í hann fer aðeins um hálf dokka af SuperSoft  Textíl-garni. 

Stroffprjón, eins og er í bolnum, er afar praktískt í barnaföt því þá er eins flíkurnar stækki með barninu.

Það sést kannski ekki nógu vel á myndinni að í bolnum eru tveir bleikir litir - aðalliturinn er millibleikur og kringingin í hálsmáli og í handvegi er í fölbleikum lit.


Til minnis:

Uppskrift af nærbol
Stærð: 0-3 mánaða

Textil-garn SuperSoft: 25 gr Allium og nokkrir metrar af Alpine Rose.
Hringprjónar nr: 3,5
Heklunál nr.3

mánudagur, 14. nóvember 2011

Hálskragi úr Bændablaðinu

Vissuð þið að í Bændablaðinu er að finna bæði handavinnu- og mataruppskriftir?
Og að það er hægt að nálgast blaðið á netinu?

Ójá.

Í marshefti Bændablaðsins er þessi líka flotta uppskrift af hálskraga á blaðsíðu 35.
(Og ef ykkur vantar eitthvað gott að maula með prjónaskapnum þá mæli ég  með hrökkbrauðsuppskriftinni á bls. 34).

Hún vinkona mín prjónaði þessa hálskraga í vor - hún prjónaði tvo - eða tvær útgáfur öllu heldur.

Annar, þessi svarti, er prjónaður úr tvöföldu Textíl-garni á prjóna númer 5, en sá appelsínuguli, er prjónaður á prjóna nr. 3,5 og þá er garnið haft einfalt.

'Aldeilis þægileg uppskrift' segir hún.' Og fljótleg'.

'Tilvalið í jólapakkann' segi ég.



Til minnis:
Uppskrift: Hlýr og töff hálskragi  (bls. 35)
Svartur kragi: ca 85 gr. Textil-garn SuperSoft, litur Black
Hringprjónar nr. 5
Prjónað úr tvöföldu garni.

Appelsínugulur kragi: ca 45 gr. Textil-garn SuperSoft, litur Burnt Orange
Hringprjónar nr. 3,5
Prjónað úr einföldu garni. Ein tala.

sunnudagur, 13. nóvember 2011

Að ljúka því sem maður byrjar á

Ég er búin að vera svolítið slæm af 'byrjunni' síðan í sumar.

Þið vitið þegar maður þarf að prófa nýjar samsetningar, liti, eða munstur.
Og byrjar á nýju og nýju verkefni og hefur svo ekki þolinmæði tíma til að ljúka.

Og hálfkláruð verkefni eru í körfum og kössum í öllum hornum.
Og eru auðvitað stundum tekin upp ... en til þess eins að vera strax sett á sama stað aftur.

Og ég hef fögur fyrirheit og set mér markmið að vera eins og sumir sem eru staðfastir og hafa aldrei nema eitt stykki á prjónunum í einu.

En stundum er eins og allt hrökkvi í gírinn og þá nýtur maður góðs af því að hafa haft margt í gangi.
Og á nokkrum kvöldstundum spretta fram peysur, sjöl eða önnur fínheit..
..og stakir sokkar eða vettlingar eignast félaga og verða par.


Hér er dæmi um litla sokka úr afgöngum af óræðum uppruna.
Ég átti til nokkra metra af sokkagarni í ljósum lit og slatta af sprengdu vínrauðu.  Vínrauði Textíl-garns liturinn, Cranberry, passaði fullkomlega með og var nauðsynlegur til að drýgja hina.

Til minnis: 
Afgangasokkar á lítil kríli.
Prjónar nr. 4,5.
Fitjið upp 32 lykkjur með tvöföldu garni (vínrautt sokkagarn og Cranberry Textíl-garn) og prjónið stroff 6 umferðir. Prjónið rendur 12 umferðir. Þá eru prjónaðar 16 lykkjur með nýju bandi (í öðrum lit - sbr. þumall). Haldið áfram að prjóna rendur þar til komið er að úrtöku fyrir tá (20 umferðir). Takið úr í annarri hverri umferð í byrjun 1. og 3. prjóns og í lok 2. og 4. prjóns - þegar 8 lykkjur eru eftir dragið þá band í gegnum lykkjurnar.  Þá er það hællinn. Takið upp lykkjurnar sem myndast þegar aukabandið er tekið (samtals 32 lykkjur) og prjónið hælinn með eins úrtöku og er á tá.