Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

sunnudagur, 4. desember 2011

Fura - hárband með köðlum


 Uss það er búinn að vera skítakuldi úti undanfarna daga.
(Ja og stundum inni líka - mér finnst ofnarnir óttalega lengi að taka við sér).

En nú er rétti tíminn til að draga fram fallegt handverk sem hlýjar...
...því vettlingar, treflar og höfuðföt eru staðalbúnaður ásamt ullarsokkum og hlýjum peysum.

Og á kvöldin er notalegt að koma sér fyrir í sófahorni með prjóna og band  - og  reyna að ná enn einni gjöfinni fyrir jól.

Hún Áshildur hannaði og prjónaði þetta glæsilega hárband/eyrnaband sem er alveg kjörið í veðrið núna.
Hárbandið er kaðall - án jaðarlykkja - og í lokin er bandið lykkjað saman þannig að samskeyti sjást ekki.
Fura heitir það og er prjónað úr tvöföldu SuperSoft Textíl-garni í dimmgrænum lit - Clover Leaf.

Til minnis:
Uppskrift: Fura (höf. Áshildur Arnardóttir)
Textíl-garn SuperSoft ca. 20 gr
litur Clover Leaf
2 bandprjónar nr. 6
kaðlaprjónn

laugardagur, 3. desember 2011

Ný garnsending...

... kom í hús í gær.       Loksins.


Það er liðinn meira en mánuður síðan ég pantaði - þannig að ég var orðin frekar langeyg eftir garni.  

Hér eru því undnar dokkur og fyllt á lagerinn meðan hlutstað er á jólalög  - en annar jólaundirbúningur settur á bið.

Í Textil-garni SuperSoft fékk ég litina Carmine (rauðan), Moorland (mosagrænan), Oxford (koksgráan), svartan og Tyrian (dökkfjólubláan).

Til þess að ná sem réttustum lit fór ég með dokkurnar út á stétt, fyrir myndatöku  - en finnst því miður litirnir ekki nógu skýrir. Græni Moorland liturinn er til dæmis óttalega gráleitur á myndinni hér fyrir ofan.

Ég fékk líka Önnugarn.

Þar komu litirnir Robins Egg (sægrænn), Cocoa (millibrúnn), Marlin (gráblár) og Denim (dökkblágrár).


En sjón er sögu ríkari.

Endilega hafið samband - þið sem voruð líka að bíða.

Ég verð heima við í dag og á morgun ef þið viljið kíkja.

fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Þæfðir vettlingar


 Eftir ótrúlega milt og gott haust er aðeins farið að kólna og í morgun var hvít jörð þegar ég vaknaði.

 Og auðvitað var ískalt að skafa af bílrúðunum...
.... nema fyrir þá sem eiga þykka og mjúka þæfða vettlinga.


Þæfingin gerir vettlingana (eða annað sem þæft er) þéttari og þar með hlýrri og sterkari.

 Við þæfinguna minnka vettlingarnir - og í sumum tilfellum allt of mikið - (ekki spyrja hvernig ég veit það)
 þannig að gera þarf ráð fyrir því þegar prjónað er. 

Mín reynsla er að því lausar sem prjónað er - (það er því stærri prjónar sem eru notaðir miðað við grófleika garns) - því meiri þæfing. 

 Hægt er að þæfa vettlingana í höndum (þá þarf heitt vatn og sápu - og  svo er bara að nudda og nudda), en einnig er hægt að þæfa í þvottavél.  Þá er betra að fara hægt í sakirnar, og finna hvernig vélin vinnur og byrja á stuttu 40° prógrammi.

 Eftir þæfinguna er svo tilvalið að æfa sig í útsaumi og láta listrænu hæfileikana njóta sín.

Til minnis:
Uppskrift af vettlingum

Textil-garn SuperSoft ca 50 gr í vettlingapar (ath. sumir nota aðeins meira)
5 sokkaprjónar nr. 5,5

Fitjað er  upp 32 lykkjur (úlnliður), og aukið í 36 á hendi.

þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Nærbolur á nýfætt

Hún Unnur prjónaði þennan nærbol á litla barnabarnið sitt, í stærðinni 'rétt nýfætt'.

Bolurinn er með fallegu berustykki, með einföldu gatamunstri og er afskaplega fljótprjónaður.
Og í hann fer aðeins um hálf dokka af SuperSoft  Textíl-garni. 

Stroffprjón, eins og er í bolnum, er afar praktískt í barnaföt því þá er eins flíkurnar stækki með barninu.

Það sést kannski ekki nógu vel á myndinni að í bolnum eru tveir bleikir litir - aðalliturinn er millibleikur og kringingin í hálsmáli og í handvegi er í fölbleikum lit.


Til minnis:

Uppskrift af nærbol
Stærð: 0-3 mánaða

Textil-garn SuperSoft: 25 gr Allium og nokkrir metrar af Alpine Rose.
Hringprjónar nr: 3,5
Heklunál nr.3

mánudagur, 14. nóvember 2011

Hálskragi úr Bændablaðinu

Vissuð þið að í Bændablaðinu er að finna bæði handavinnu- og mataruppskriftir?
Og að það er hægt að nálgast blaðið á netinu?

Ójá.

Í marshefti Bændablaðsins er þessi líka flotta uppskrift af hálskraga á blaðsíðu 35.
(Og ef ykkur vantar eitthvað gott að maula með prjónaskapnum þá mæli ég  með hrökkbrauðsuppskriftinni á bls. 34).

Hún vinkona mín prjónaði þessa hálskraga í vor - hún prjónaði tvo - eða tvær útgáfur öllu heldur.

Annar, þessi svarti, er prjónaður úr tvöföldu Textíl-garni á prjóna númer 5, en sá appelsínuguli, er prjónaður á prjóna nr. 3,5 og þá er garnið haft einfalt.

'Aldeilis þægileg uppskrift' segir hún.' Og fljótleg'.

'Tilvalið í jólapakkann' segi ég.



Til minnis:
Uppskrift: Hlýr og töff hálskragi  (bls. 35)
Svartur kragi: ca 85 gr. Textil-garn SuperSoft, litur Black
Hringprjónar nr. 5
Prjónað úr tvöföldu garni.

Appelsínugulur kragi: ca 45 gr. Textil-garn SuperSoft, litur Burnt Orange
Hringprjónar nr. 3,5
Prjónað úr einföldu garni. Ein tala.

sunnudagur, 13. nóvember 2011

Að ljúka því sem maður byrjar á

Ég er búin að vera svolítið slæm af 'byrjunni' síðan í sumar.

Þið vitið þegar maður þarf að prófa nýjar samsetningar, liti, eða munstur.
Og byrjar á nýju og nýju verkefni og hefur svo ekki þolinmæði tíma til að ljúka.

Og hálfkláruð verkefni eru í körfum og kössum í öllum hornum.
Og eru auðvitað stundum tekin upp ... en til þess eins að vera strax sett á sama stað aftur.

Og ég hef fögur fyrirheit og set mér markmið að vera eins og sumir sem eru staðfastir og hafa aldrei nema eitt stykki á prjónunum í einu.

En stundum er eins og allt hrökkvi í gírinn og þá nýtur maður góðs af því að hafa haft margt í gangi.
Og á nokkrum kvöldstundum spretta fram peysur, sjöl eða önnur fínheit..
..og stakir sokkar eða vettlingar eignast félaga og verða par.


Hér er dæmi um litla sokka úr afgöngum af óræðum uppruna.
Ég átti til nokkra metra af sokkagarni í ljósum lit og slatta af sprengdu vínrauðu.  Vínrauði Textíl-garns liturinn, Cranberry, passaði fullkomlega með og var nauðsynlegur til að drýgja hina.

Til minnis: 
Afgangasokkar á lítil kríli.
Prjónar nr. 4,5.
Fitjið upp 32 lykkjur með tvöföldu garni (vínrautt sokkagarn og Cranberry Textíl-garn) og prjónið stroff 6 umferðir. Prjónið rendur 12 umferðir. Þá eru prjónaðar 16 lykkjur með nýju bandi (í öðrum lit - sbr. þumall). Haldið áfram að prjóna rendur þar til komið er að úrtöku fyrir tá (20 umferðir). Takið úr í annarri hverri umferð í byrjun 1. og 3. prjóns og í lok 2. og 4. prjóns - þegar 8 lykkjur eru eftir dragið þá band í gegnum lykkjurnar.  Þá er það hællinn. Takið upp lykkjurnar sem myndast þegar aukabandið er tekið (samtals 32 lykkjur) og prjónið hælinn með eins úrtöku og er á tá.

þriðjudagur, 20. september 2011

Þrílitt sjal

Þó veðrið sé fallegt þessa stundina  þá er kuldi í loftinu og þá er fátt betra en að sveipa um sig glæsilegu heimaprjónuðu sjali.

(Og það er skrítið að þó ég eigi fullt af klútum, treflum og sjölum þá fyllist ég alltaf þörf fyrir nýtt sjal á haustin. Kannski í nýjum lit eða úr öðruvísi garni eða þá að ég þarft endilega að prófa nýtt mynstur.)

Og þá er tilvalið að taka upp prjónana, velja garn og koma sér vel fyrir í sófanum. 

Og ekki er verra ef  uppskriftin er einföld - svona 'horft á sjónvarp uppskrift'.

Enn leita ég í smiðju handavinnusnillinganna í kringum mig, með uppskrift að einföldu sjali.

Til minnis

Textíl-garn SuperSoft: 1 dokka í hverjum þessara lita Ecru, Svart og Crocus, samtals 130-140 gr.
Hringprjónar nr. 4.5

Fitjið upp 401 lykkju úr einföldu garni og prjónið eina umferð. 
Gott er að setja prjónamerki sitthvoru megin við miðjulykkjuna - til að merkja úrtöku betur. Þá eru prjónaðar 200 lykkjur, setjið prjónamerki, 1 lykkja, setjið prjónamerki, og svo er prjónað út prjóninn.

Í næstu umferð er tekið úr fjórum sinnum. 
Prjónaðar eru tvær lykkjur (jaðarlykkjur) í byrjun prjóns og svo er tekið úr með því að prjóna saman næstu tvær lykkjur. 
Takið saman tvær lykkjur hvoru megin við miðjulykkjuna
og svo er úrtaka í lok prjóns, þegar fjórar lykkjur eru eftir þá eru prjónaðar tvær lykkjur saman og svo eru jaðarlykkjurnar tvær prjónaðar.

Nú eru prjónaðar til skiptis umferð (án úrtöku) og umferð með úrtöku. Lykkjunum fækkar því um 4 lykkjur í annarri hverri umferð.

Prjónið rendur, eins og ykkur lystir. Ýmist breiðar eða mjóar.
Til að ranga verði eins og rétta og gera litaskipti fallegri er hægt að prjóna gatamunstur út prjóninn þannig: prjóna tvær lykkjur saman og slá upp á prjóninn, gert eins út allan prjóninn.
Þetta má sjá á sjalinu hér fyrir neðan.


sunnudagur, 18. september 2011

Ehm - hóst, hóst - ný garnsending

 Það er komið haust og verkefnin breytast.

Það er farið að dimma á kvöldin.
Skólarnir eru byrjaðir.
Prjónarnir eru dregnir fram
og alls kyns klúbbastarf er að fara af stað

Ég hef fyllt á garnlagerinn 
og undanfarna daga hefur yfirvindari heimilisins setið við 
og undið og undið.

Hér er því allt fullt af dokkum
í yfir 40 litum sem eru hver öðrum fallegri.  
Og ég bíð spennt eftir því að sýna þá.
Endilega hafið samband ef þið viljið fá kynningu.

laugardagur, 23. apríl 2011

Vorklæðnaður


Þó dagatalið sýni vor - og sumardagurinn fyrsti sé liðinn - þá er skítakuldi úti.
Og full þörf á því að klæða lítinn karl í ullarvesti.

Ég hef svolítið verið að prófa mig áfram -þegar ég prjóna úr Textíl-garninu tvöföldu - og setja saman tvo ólíka liti. Hér er einn þráður af Pale Oak og annar af Truffle og er ég bara ánægð með útkomuna.
Uppskriftin er eins og stundum - dálítil samsuða.

Grunnurinn er vesti sem ég prjónaði eftir uppskrift frá Ruth - en hugmynd að útfærslunni er úr desemberhefti Strikkemagasin (babyvest) en úr mun fínna garni.

Til minnis:

Textíl-garn: í vestið fara 85 gr af garni - rúmlega 40 gr af litnum Pale Oak og sama magn af Truffle
Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5

Útfærsla á vestisuppskrift:

Fitjið upp 108 l á prjóna nr. 5 og prjónið 4 garða
Tengið þá saman í hring, setjið prjónamerki til að merkja byrjun umferðar (sem er á annarri hlið) og setjið upp munstur
Prjónið 1sl, 2 br, 17 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 17 sl, 2 br, 1 sl -setjið prjónamerki (hér byrjar bakstykki) og endurtakið munstur frá framhlið.

Prjónið 17 cm þá er komið að undirbúningi ermagats.
Prjónið með garðaprjóni 4 lykkjur sitthvoru megin við prjónamerki (samtals 8 lykkjur í hvorri hlið) - Prjónið 4 umferðir -þannig að 2 garðar myndist undir hendi - skiptið þá í fram og bakstykki.

Framstykki: Fellið af fyrstu lykkju og prjónið næstu þrjár lykkjur með garðaprjóni - fylgið munstri þar til í lok prjóns þá eru prjónaðir þrjár lykkjur með garðaprjóni og seinasta lykkja felld af. Prjónið þar til framstykki mælist 21 cm þá er byrjað á hálsmáli. Hálsmálið er prjónað eins og er sýnt hér

Bakstykki: Fellið af og prjónið garða eins og lýst er í framstykki - fylgið munstri þar til bakstykki mælist 28 cm. Setjið þá 20 miðjulykkjur á band - og prjónið hvort axlastykki fyrir sig. Til að fá rúnning í hálsmálið er tekið úr 3svar - einu sinni í hverri umferð - þá eru samtals 14 lykkjur á hvorri öxl. Prjónið þar til axlastykkin mælast 3 cm. Þá má annað hvort fella lykkjurnar af - en mér finnst fallegra að setja þær á band og lykkja saman axlastykki á framstykki og bakstykki.

Hálsmál: takið upp lykkjur og og prjónið 4 garða. Fellið laust af.

Þvoið vestið í höndunum úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið vestið til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.

fimmtudagur, 21. apríl 2011

Bolero eða ermar

smellið á myndina til að stækka

Ég fór í saumaklúbb um daginn og hitti hana Gígju sem var með ótrúlega flotta útfærslu á ermum eins og við höfum verið að prjóna.

Og þó það er ekki rétt að kalla þetta útfærslu heldur er þetta algjörlega ný flík.
Og miklu frekar bolero en ermar.

En hún byrjar með því að prjóna ermar eins og venjulega - ja þær eru reyndar örlítið minni - en heklaður kragi sem getur líka snúið niður - breytir flíkinni heilmikið eins og sjá má á myndunum.

Og skoðið svo heklið framan á ermum og hvernig flíkin er ´lykkjuð´ saman með loftlykkjum.

Æðisleg flík sem Gígja var svo ljúf að leyfa mér að sýna hér ásamt uppskrift.

Til minnis

Gígju - bolero

Textíl-garn : litur Burnt Orange tæplega 3 dokkur (ca 130 gr) fyrir stærð S
Prjónar nr. 7
Heklunál nr. 4

Fitjað upp á prj. nr. 7 11o L, prjónað garðaprjón þar til stykkið mælist 46-50 cm (síddin á flíkinni). Heklaði svo uppfit og affellingu saman; 3 loftlykkjur í uppfit, krossað yfir í affellingu með fastapinna, 3LL yfir í uppfitina og svo koll af kolli. Alls í 17 cm.

Heklaði þröngar ermar framaná, einhvern veginn svona:

1. umf.: 64 fastapinnar í jaðar á erminni.

2. umf.: 3LL (fyrsti stuðull) 1 stuðull, 2LL 2st. Allt í sama fastapinnann frá 1. umf. Hoppið yfir 5 fastapinna. *2st. 2LL 2st* Endurtakið *-* út umferðina.

2. umferð er endurtekin 14 sinnum í viðbót, eða þar til ermin hefur náð æskilegri lengd.

Kragi heklaður eins og gert var framan á ermarnar, 15 umf. en aukið út með loftlykkjum á milli stuðlahópanna í 5. hverri umferð: 2st. 2LL 2st. 1LL í 4 umferðir. 2st 2LL 2 st 2 LL í 4 umferðir, og svo frv. Í 15. umferð eru loftlykkjurnar orðnar 5 á milli stuðlahópanna.

Hægt er svo að nýta ermarnar „réttar“ og á hvolfi, þá myndar kraginn einhvers konar skjuð á jakkann neðanverðan.

þriðjudagur, 19. apríl 2011

Strákapeysa

Hún Anna sem vinnur með mér prjónaði þessa peysu á ömmustrákinn sinn.
Litirnir eru dálítið óvenjulegir
grátt og brúnt og beis og sterkórans -
og mikið rosalega finnast mér þeir flottir

Ef þið viljið láta freistast þá er uppskriftina af peysunni að finna á heimasíðu Hendes Verden

Til minnis

Strákapeysa - uppskrift
Stærð: 4 ára

Textíl-garn: Í peysuna fara uþb 70 gr af hverjum lit: Pale Oak, Flannel Grey og Tobacco. Örlítið af Saffron. Samtals fara í peysuna 200 gr.

Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 4,5

mánudagur, 18. apríl 2011

Páskafrí



Ahh þá er loksins komið páskafrí.
Frí í heila 10 daga.

Og planið er að gera ekki neitt.
Alls ekkert...

... nema koma sér vel fyrir í sófanum og lesa fullt af krimmum

...og kannski klára vettlingana sem ég er búin að vera að prjóna og rekja upp til skiptis í nærri tvær vikur
... já og halda áfram með sjalið - ...og fjólubláu síðu peysuna - og finna út úr því hvort sú ljósgráa er algjört klúður
... og svo er smotterí sem ég er að sauma

... og vinda meira garn - við erum bara búin að vinna helminginn af nýju sendingunni.
Úbbs ég var nærri búin að gleyma að segja frá því að það er komin ný garnsending - og eins og áður get ég ekki hamið mig og er búin að bæta við fleiri litum.

... já og svo þarf að mála íbúðina en vorverk í garðinum frestast vegna snjókomu

... og uppfæra síðuna - ekki gleyma því - ég er með myndavélina fulla af afrekum myndarlegra kvenna í kringum mig - meira um það á morgun

sunnudagur, 13. mars 2011

Vestið Clara

Ég skoða töluvert af dönsku prjónabloggi og það var á einhverju þeirra sem ég rakst fyrst á þetta vesti sem heitir Clara. (Reyndar held ég að allflestir Danir sem prjóna á annað borð hafi prjónað vestið.)

Mér fannst vestið ferlega flott - sérstaklega berustykkið og lagðist því í leit að uppskriftinni.

Á heimasíðu
Isager Strik er uppskriftin til sölu ásamt garni.
(Athugið þó að ekki er hægt að greiða með kreditkorti heldur þarf greiðsla að fara fram í gegnum banka.)

Á ravelry er vísað í fría uppskrift af vesti/kjól sem heitir Autumn Leaves og er með mjög áþekku munstri og er í berustykki Clöru.

Og svo rakst ég á þessa uppskrift af dúkkukjól á vefsíðu Familie Journalen. Og ég fæ ekki betur séð en að það sé nákvæmlega sama berustykki.

Svo nú er bara að finna prjóna, velja lit og fitja upp.

Til minnis:

Textíl-garn: uþb 100 gr
Litur: Carmine
Prjónar: Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5.

Uppskrift:
Clara (ath. þarf að panta frá Danmörku - uppskrift kostar)
eða stækkið uppskrift af dúkkukjól
eða Autumn Leaves

Ath: Í vesti fyrir þriggja ára fitja ég upp 110 lykkjur og prjóna 10 umferðir perluprjónskant. Bolur að handvegi er 23 cm.


sunnudagur, 6. mars 2011

Ný sending


Í vikunni fékk ég nýja sendingu af garni, sem nú er búið að vinda í dokkur.

Ég á því nóg til af svörtu, gráu og hvítu...
..ja í bili að minnsta kosti.



Af brúnu litunum fékk ég Coffee (vonandi kemur Tobacco næst) og svo
splunkunýjan ofsalega fallegan kanilbrúnan lit sem heitir Cinnamon.
Mér líst ægilega vel á hann.


Sterkbleiki (Peony) liturinn er loksins til aftur sem og sá blágræni (Robins Egg).


Ég er að prufa mig áfram með ljósa liti og er spennt að heyra hvað
ykkur finnst um nýja Almond litinn.


Því miður fékk ég ekki litina Aubergine, Saffron, Ember, Cloudberry og Red Clover. En á von á að þeir komi með næstu sendingu.

miðvikudagur, 2. mars 2011

Lopapeysan Freyja

Þessa útgáfu af lopapeysunni Freyju prjónaði einn vinnufélagi minn.
Peysan sjálf er prjónuð úr lopa - en munstrið er prjónað með tvöföldu Textíl-garni.
Skemmtileg samsetning - þar sem Aubergine liturinn nýtur sín einstaklega vel með ljósgráum lopanum.

Hún Ragnheiður Eiríksdóttir á Knitting Iceland á heiðurinn af hönnuninni - en hægt er að nálgast uppskriftina frítt á netinu.

Til minnis:

Stærð S
Garn: Í aðallit er einfaldur plötulopi í ljósasta gráa litnum- uþb 200 gr og í munstur eru uþb 20-25 gr Textíl-garn í litnum Aubergine

Prjónar: Hringprjónar og sokkaprjónar nr. 4,5

Uppskrift: Freyja Ragnheiðar Eiríksdóttur á Knitting Iceland


þriðjudagur, 1. mars 2011

Kragi

Pimlico heitir uppskriftin af þessum fallega græna kraga sem hún vinkona mín prjónaði.

Uppskriftina er að finna á ravelry.com - en ravelry er prjóna- og heklusamfélag á netinu þar sem er að finna ógrynni uppskrifta og alls konar hugmynda. Já eiginlega allt sem hugurinn girnist. En vefurinn byggist á framlagi einstaklinga sem deila handavinnuáhuga.

Ég vil endilega hvetja ykkur til að skrá ykkur ef þið eruð ekki nú þegar meðlimir.
Og ekki síður benda ykkur á að nota tækifærið og skrá það sem þið eruð að vinna og hafið búið til. Því það er ótrúlega þægileg leið til að halda utan um handavinnuna sína og fríska upp á minnið hvað maður hefur gert í gegnum tíðina - rifja upp garntegundir og prjónastærðir og fleira í þeim dúr.

En aftur að kraganum

Til minnis:

Textíl-garn: 50 - 60 grömm
Litur: Larch
Prjónar: hringprjónar nr. 3,5

Uppskrift: Pimlico


sunnudagur, 27. febrúar 2011

Ermar...

...eru afskaplega þægilegur fatnaður.

Þær er hægt að prjóna í mismunandi útfærslum, úr ólíkum litum og öllum stærðum. Nota má Textíl-garnið hvort sem er einfalt eða tvöfalt og prjónastærðin fer dálítð eftir smekk - og hversu létt og loftkennd flíkin á að vera.

Til að gera ermarnar enn líkari peysu er hægt að prjóna framan á ermagatið og lengja þannig ermarnar (sjá mynd neðar).

Og uppskriftin ætti ekki að vefjast fyrir neinum

Til minnis

Textíl-garn: 2 dokkur (100 gr)
Litur: efri mynd: Coffee
neðri mynd: Bokhara

Prjónar
nr. 7

Aðferð
Fitjið upp 120 lykkjur með einföldu garni á prjóna nr. 7. Prjónið garðaprjón úr tveimur dokkum af Textíl-garni og fellið af (rétt áður en garnið klárast alveg).

Þá eruð þið komin með ferhyrning sem er brotinn saman í helming. Saumið saman stuttu hliðar ferhyrningsins uþb 2/3 af lengdinni - en skiljið eftir uþb 1/3 af lengdinni fyrir hendur.

Fallegur frágangur fæst með því að sauma saman uppfit og affellingu frekar en jaðra.

Ef þið viljið lengri ermar þá má taka upp 35-40 lykkjur í ermagati og prjóna fram - eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Passar fínt að nota prjóna númer 3,5 - 4.

laugardagur, 26. febrúar 2011

Vesti

Ég skrapp niður í bæ í gær.
Úti var hráslagalegt um 3ja stiga hiti (sem er ekki svo slæmt í febrúar)- en líka rigning og rok.

Og fólk gekk ekki á milli staða heldur setti undir sig hausinn og hljóp...
... eða kannski fauk það bara.

Og í dag er snjóföl yfir öllu.

En það er vetur og maður þarf að vera tilbúinn fyrir hvaða veður sem er.
Og nauðsynlegt er að gæta að klæðnaði þeirra litlu, því vindurinn og kuldinn smjúga alls staðar.

Þá er fátt betra en notalegt og hlýtt ullarvesti. Vesti sem er einfalt og tekur aðeins kvöldstund að prjóna.

Kostur við vestið er að það er prjónað með stroffprjóni (þ. e. tvær lykkjur sléttar og tvær brugðnar) og bókstaflega vex með barninu. Uppskriftin er einföld og þægileg að prjóna eftir auk þess að vera ágætis dönskuæfing.

Til minnis:

Textíl-garn: 70-75 gr
Litur: Ljósgrænn (ekki til lengur)

Munstur: Nærbolur Ruth
Prjónar: Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5.

Breytingar á uppskrift:
Garnið sem gefið er upp í uppskriftinni er fínna en tvöfalda Textíl-garnið.
Í vesti fyrir eins til tveggja ára passar að fitja upp 54 lykkjur eins og er í minnstu stærðinni.
Lengja svo bolinn - og prjóna 21 cm áður en byrjað er á tölulista að framan.
Að öðru leyti er uppskriftinni fylgt.



mánudagur, 21. febrúar 2011

Mér finnst lopapeysa ...

...vera skyldueign.

En hún þarf ekkert endilega að vera úr lopa.

Það er til dæmis alveg tilvalið að prjóna hana, eins og samstarfskona mín gerði, úr mjúku Textíl-garni í fallegum gráum lit, með bláu, rauðu og hvítu munstri. (Ja eða í þeim litum sem ykkur finnast fallegastir).

Þá er bara að fletta lopablöðunum, finna léttlopamunstur og prjóna í réttri stærð.
Koma sér þægilega fyrir í sófanum, með kaffibollann innan seilingar og spennumynd í sjónvarpinu eða músik í iPodinum.
Fitja upp...


Til minnis
:

Textíl-garn:
aðallitur - Flannel Grey u.þ.b.70 gr
í munstur: Indigo u.þ.b. 30 gr, Ecru u.þ.b. 25 gr, Carmine 15-20 gr

Uppskrift: Kambur úr: LOPI 28, stærð 3ja ára
Hringprjónar og sokkaprjónar nr. 4,5

Þvoið peysuna í höndunum úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið peysuna til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.

sunnudagur, 20. febrúar 2011

Komnir aftur


Ég vildi bara láta ykkur, sem biðuð, vita...

.... að fjólublái liturinn - þessi ljósari (Crocus),

rauði liturinn (Carmine)

og ljósasti brúni liturinn (Truffle)

eru komnir í hús.

Ójá.

mánudagur, 7. febrúar 2011

Treflar og treflar



Þessir hringtreflar hafa aldeilis vakið lukku.

Ég prjónaði á mig og gaf svo nokkra í jólagjafir og það sama gerðu prjónarar í kringum mig.

Hér má sjá nokkrar útfærslur, í mismunandi litum og prjónaðar af ólíkum aðilum...
...(takk stelpur fyrir að leyfa mér að sýna verkin ykkar).

Uppskriftin er eiginlega alltaf sú sama - eins og hún er sýnd í dökkgráa treflinum eða eins og hún er útfærð í þeim hvíta.

Til minnis:

Í trefilinn fara um 100 gr, það er 2 dokkur af Textil-garni
Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5, 6 eða 7 - (eftir smekk).

Og takið eftir hvað litirnir eru flottir.

Í þessa trefla eru notaðir litirnir hvítt (Ecru), rautt (Carmine) og grænt (Calypso).

sunnudagur, 6. febrúar 2011

Litir uppfærðir

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá alla liti sem nú eru til í Textíl-garni.

Ef smellt er á myndina sést hún stærri og litirnir greinilegri.

Athugið þó að litir á tölvuskjá eru aldrei alveg eins og í raunveruleikanum.

Gular legghlífar

Ég rakst á uppskrift fyrir jól af gulum legghlífum.

Stóðst ekki mátið og fannst enginn annar litur koma til greina en sterkgulur.

Dóttirin var fljót að eigna sér legghlífarnar - og fannst þær bráðnauðsynleg viðbót í vetrarfataskápinn.

Og ekki eru þær notaðar minna núna í öllum þessum snjó.

Til minnis:

Textil-garn: 85 grömm
Litur: Sunrise
Prjónað úr tvöföldu garni

Uppskriftin heitir Waterlily Leg Warmers og er ótrúlega þægileg,
sami lykkjufjöldi er alla leið en mismunandi vídd fæst með misgrófum prjónum (stærð 4, 5 og 6)

laugardagur, 5. febrúar 2011

Og svo kom garnið...

...eftir laaanga bið.

Mikið var ég fegin.
Ég átti nefnilega vandræðalega lítið til á lagernum.

En nú er garnið komið í hús og seinasta vika (já eða tvær) hefur farið í að vinda í dokkur.

Um eða eftir helgi set ég inn nýtt litaspjald því eins og þið sjáið þá eru komnir splunkunýir litir.

Og maður minn hvað þeir eru fallegir.