Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

laugardagur, 26. febrúar 2011

Vesti

Ég skrapp niður í bæ í gær.
Úti var hráslagalegt um 3ja stiga hiti (sem er ekki svo slæmt í febrúar)- en líka rigning og rok.

Og fólk gekk ekki á milli staða heldur setti undir sig hausinn og hljóp...
... eða kannski fauk það bara.

Og í dag er snjóföl yfir öllu.

En það er vetur og maður þarf að vera tilbúinn fyrir hvaða veður sem er.
Og nauðsynlegt er að gæta að klæðnaði þeirra litlu, því vindurinn og kuldinn smjúga alls staðar.

Þá er fátt betra en notalegt og hlýtt ullarvesti. Vesti sem er einfalt og tekur aðeins kvöldstund að prjóna.

Kostur við vestið er að það er prjónað með stroffprjóni (þ. e. tvær lykkjur sléttar og tvær brugðnar) og bókstaflega vex með barninu. Uppskriftin er einföld og þægileg að prjóna eftir auk þess að vera ágætis dönskuæfing.

Til minnis:

Textíl-garn: 70-75 gr
Litur: Ljósgrænn (ekki til lengur)

Munstur: Nærbolur Ruth
Prjónar: Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5.

Breytingar á uppskrift:
Garnið sem gefið er upp í uppskriftinni er fínna en tvöfalda Textíl-garnið.
Í vesti fyrir eins til tveggja ára passar að fitja upp 54 lykkjur eins og er í minnstu stærðinni.
Lengja svo bolinn - og prjóna 21 cm áður en byrjað er á tölulista að framan.
Að öðru leyti er uppskriftinni fylgt.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli