Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

fimmtudagur, 25. nóvember 2010

Hvítur trefill

Aftur fæ ég tækifæri til að sýna myndarskapinn á vinnufélögum mínum.

Hér er verk annarrar samstarfskonu - hvít útgáfa af dökkgráa treflinum.

Trefilinn prjónar hún til skiptis úr einföldu og tvöföldu garni.

Glæsilegt.

Til minnis:

Textíl-garn ca 90 gr
Litur: White
Hringprjónar nr. 4,5 og 6

Fitjið upp 220 lykkjur með tvöföldu garni á prjóna nr. 6. Prjónið fyrstu umferð (hring) slétt prjón og næstu umferð (hring) eina lykkju slétta og eina brugðna. Endurtakið þessar tvær umferðir fimm sinnum - samtals 10 umferðir (stroffprjón).

Skiptið yfir á prjóna nr. 4,5 og prjónið 5 umferðir slétt prjón með einföldu garni.

Prjónið því næst 10 umferðir stroffprjón (tvöfalt garn), svo 5 umferðr slétt prjón (einfalt garn) og að lokum 10 umferðir stroffprjón (tvöfalt garn).

Fellið laust af.
Þvoið trefilinn úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið trefilinn til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.

miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Grænn trefill

Jólagjafaundirbúningur er í fullum gangi hjá flestum prjónurum og til verða peysur, sokkar og vettlingar fyrir bæði börn og fullorðna.
Já og húfur og treflar af öllum stærðum og gerðum.

Því það eru bókstaflega allir að prjóna.

Mig langar að sýna ykkur útfærslu af dökkgráa treflinum sem samstarfskona mín prjónaði.

Trefillinn er prjónaður úr einni dokku af einföldu Textíl-garni á hringprjóna númer 4,5.

Flottur - finnst ykkur ekki?

Til minnis:

Textíl-garn 50 gr
Litur: Larch
Hringprjónar nr. 4,5

Fitjið upp 225 lykkjur.
Prjónið fyrstu umferð (hring) slétt prjón og næstu umferð (hring) eina lykkju slétta og eina brugðna. Þessar tvær umferðir eru endurteknar að vild (eða hve lengi garn endist).
Fellið laust af.
Þvoið trefilinn úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið trefilinn til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.

mánudagur, 22. nóvember 2010

Trefill eða sjal...


...kragi eða strokkur?

Ég veit bara alls ekki hvað ég á að kalla svona háls..umbúnað - kannski hólk?

En ég átti smávegis af ljósgrænu Textíl-garni og svo tæplega eina ljósbláa dokku af einbandi. (Ótrúlegt hvað ég er nýtin).

Prjónar númer 5, uppskrift og nokkur kvöld sem ekki eru frátekin í annað.

Prjónað eftir uppskrift þar til rétt áður en garnið klárast (minn kragi/hólkur er styttri en er í uppskrift).

Tilbúið.

Til minnis

Textíl-garn ca 40 gr
Litur: ljósgrænn
Einband: ljósblátt - ca 50 gr
Prjónað úr tvöföldu garni (einn þráður Textil-garn og einn þráður einband).
Prjónar nr 5
Uppskrift: Fresco Basket Whip Cowl

laugardagur, 20. nóvember 2010

Dökkgrár trefill


Í kringum mig eru alveg ótrúlegir duglegir prjónarar.

Hugmyndaríkir og drífandi - og viljugir að deila bæði uppskriftum og ráðum.

Það var einmitt hjá einum þeirra sem ég fékk hugmynd að trefli sem verður jólagjöfin hjá unglingsstelpunum í minni fjölskyldu í ár.

Uppskriftin er bæði einföld og fljótleg - og afraksturinn er þægilegur og flottur trefill sem hægt er að margvefja um hálsinn.

Til minnis:

Textíl-garn 100 gr
Litur: Oxford Grey
Hringprjónar nr.7

Ath. trefillinn er prjónaður í hring.
Stærð: trefillinn tvöfaldur er 105 cm (þvermál), hæð er 15 cm.

Fitjið upp 200 lykkjur, með tvöföldu garni, á hringprjóna nr. 7.
Prjónið eina umferð slétt prjón
Í næstu umferð er prjónað slétt og brugðið til skiptis.
Prjónið þessar umferðir til skiptis þar til trefillinn er orðin eins breiður og hann á að vera (eða garnið klárast).
Fellið laust af.
Þvoið trefilinn úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið trefilinn til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.



miðvikudagur, 17. nóvember 2010

Einföld barnapeysa

Jæja ég er loksins búin.

Þetta hefur tekið alveg ógnarlangan tíma.

Ekki þó að prjóna peysuna - onei - það tók örstutta stund.

En aðgerðin - skrifa niður / búa til uppskrift - hefur tekið þvílíkan tíma. Ég þori ekki einu sinni að segja frá hve langan.

Það er nefnilega langur vegur frá minnispunktum á blaði að fullbúinni uppskrift.

Ójá.

Og svo er ég ekki einu sinni örugg á því að hafa skrifað niður uppskrift á skiljanlegu máli.
Uppskriftina er að finna í krækju hér örlítið neðar á síðunni. Og ég treysti á að þið sendið mér póst ef þið prófið að prjóna uppskriftina og rekist á eitthvað skrítið eða eitthvað sem engan veginn stenst.

(Það viðurkennist hér með að ég er ekki alveg eins hrokafull og ég var fyrir nokkrum dögum þegar ég hélt að ég myndi hrista uppskriftir fram úr erminni -hverja af annarri).

Til minnis

Uppskrift (Google Docs pdf-skjal)
Í peysuna fara 50 gr. af Textíl -garni í litunum Brunt Orange, Coffee og ljósgrænu.
Prjónar nr. 3,5 (sokkaprjónar og hringprjónar)
Prjónamerki 4 stk.

Einföld og fljótleg peysa.

laugardagur, 13. nóvember 2010

60 grömm af notalegheitum

Mér finnst nauðsynlegt að eiga sjöl og trefla í öllum stærðum og gerðum.

Já - og í sem flestum litum til að lífga upp á annars ansi dökkan (lesist svartan) fatnað.

Í dálítinn tíma hefur mig langað til að prófa að prjóna sjal með gatamunstri. Bara eitthvað svona einfalt - þið vitið.

Munstrið sem ég valdi heitir Shetland Triangle Lace Shawl eftir Evelyn A. Clark og er úr bókinni Wrap Style. Á ravelry.com er hægt að kaupa uppskriftina og þar er líka hægt að skoða yfir 3000 útfærslur á sjalinu.

Uppskriftina get ég því miður ekki sett inn hér en í staðinn set ég inn tvær krækjur á svipuð sjöl.

Hið fyrra er eftir Evelyn A. Clark og heitir Swallowtail Shawl en hið síðara Budding Shawlette eftir Joyce (YuLian) Yu.

Svona gataprjón er alveg stórskemmtilegt þó ég viðurkenni að smá þolinmæði sé nauðsynleg í byrjun verks. En ég hvet ykkur endilega til að prófa þessar uppskriftir.


Til minnis

Textíl-garn ca 60 grömm
Litur Robins Egg
Hringprjónar nr 4
Smá athygli og þolinmæði í byrjun

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Vettlingar

Það fór að snjóa í vikunni og ég hef þurft að skafa af bílrúðum bæði kvölds og morgna.
Svona veður kallar á nýja vettlinga.

Eflaust kunna flestir einfalda grunnuppskrift að vettlingum sem þeir nota, en ég læt mína uppskrift fylgja með hér fyrir neðan.

Núna er ég dálítið hrifin af einföldum vettlingum sem skreyttir eru með útsaumi og hef rekist á hugmyndir af slíku víða á netinu.

Útsaumur Liselotte var kveikjan að minni útfærslu.
Á Knitting Iceland má svo sjá eina hugmynd og á ravelry.com eru enn fleiri.

Svona útsaumur er bara skemmtilegur.

Vettlingar
Prenta uppskrift (pdf-skjal Google Docs)

Textíl-garn ca 35-40 grömm
Litur Pale Oak, örlítið af Denim lit
Prjónar nr 4,5

Ath: Fitjað er upp með Denim-lit en svo er skipt í aðallit sem allur vettlingurinn er prjónaður með.

Fitjið upp 36 lykkjur og skiptið þeim niður á fjóra prjóna. Prjónið í hring stroff, eina lykkju slétt og eina brugðna til skiptis 8 cm (25 umferðir). Næsta umferð er prjónuð slétt og þá er tveimur lykkjum aukið í, einni í lok annars prjóns og annarri í lok fjórða prjóns.
Prjónið allar lykkjur sléttar þar til stykkið mælist 6 cm (17 umf).

Þá þarf að prjóna fyrir þumli.
Prjónið eina lykkju af fyrsta prjóni. Þá eru 6 næstu lykkjur prjónaðar með aukabandi. Setjið þær aftur yfir á prjóninn og prjónið með aðallit.
Á seinni vettlingi er gert ráð fyrir þumli á sama hátt en þá í lok annars prjóns.

Prjónið slétt prjón ca 9,5 cm til viðbótar (25 umf).

Úrtaka:
Fyrsti prjónn: fyrsta lykkja tekin óprjónuð, næsta lykkja prjónuð og fyrri lykkju er steypt yfir.
Annar prjónn: tvær síðustu lykkjur á prjóni eru prjónaðar saman.
Þriðji prjónn er prjónaður eins og sá fyrsti og fjórði prjónn eins og annar prjónn.
Þetta er endurtekið í hverri umferð þar til 6 lykkjur eru eftir á prjónunum. Þá er bandið slitið frá og endinn dreginn í gegnum lykkjurnar.

Þumall:
Takið aukabandið úr og takið upp 6 lykkjur að framan (lófi), 6 lykkjur að aftan (fingur) auk 2-3 lykkja í hliðum. Skiptið lykkjunum á þrjá prjóna. Prjónið saman aukalykkjurnar í hliðunum þannig að þumallinn sé samtals 14 lykkjur. Prjónið þá ca 5 cm (15 umf) slétt prjón.
Úrtaka á þumli er gerð eins og á vettlingnum.

Frágangur:
Saumið munstur á handarbak, eins og ykkur lystir, með keðjuspori eða krosssaumi.
Gangið frá öllum endum. Þvoið vettlingana úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið vettlingana til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.

laugardagur, 6. nóvember 2010

Blá Amelia

Amelia-peysan er tilbúin.

Ég er búin að þvo hana og festa á tölur.
(Ég átti reyndar bara 4 tölur - reyni að redda einni í viðbót á mánudag)

Mátuð.
Úbbs ég feilreiknaði eitthvað stærðina.

En hún passar systur minni fullkomlega.
Henni finnst það ekki slæmt.

Til minnis:

Munstur: Amelia á Knitty
Peysan er prjónuð í stærð XS en lengd í stærð L.
Textíl -garn 260gr
Litur: Denim
Prjónað úr tvöföldu garni, hringprjónar nr. 5.
Einföld og fljótprjónuð peysa.

Þó úti sé dimmt og kalt...

...er notalegt hérna inni.

Eftir að hafa þaullesið blaðið, drekk ég te við kertaljós og er spennt að byrja á næsta verkefni.

Ég kláraði peysu í gærkveldi og er að bíða eftir að hún þorni svo ég geti fest á hana tölur. Sýni hana vonandi seinna í dag.

Ég er búin að velja liti. Ljósbeis og svo millibláa litinn sem var afgangs af peysugarninu.

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Grifflur

það var skítakuldi úti áðan.

Já og meira að segja líka inni í bílnum.

Nú fer sko ekkert á milli mála að það er kominn tími á vettlinga og trefla.

Um daginn prjónaði ég mér grifflur úr Textíl-garninu. Grifflur eru auðvitað, eins og allir vita, mun þægilegri en vettlingar í bílinn. Og í þær fer alveg ótrúlega lítið garn.

Og svona er uppskriftin:


Grifflur:

Uppskrift til útprentunar (pdf-skjal á Scribd)
Uppskrift til útprentunar (pdf-skjal á Google Docs)

Textíl-garn ca 20 grömm
Aðallitur Moorland, rendur Sunrise (litur ekki kominn)
Prjónar nr 3

Fitjið upp 48 lykkjur og skiptið þeim jafn niður á fjóra prjóna. Prjónið í hring stroff, eina lykkju slétt og eina brugðna til skiptis 6 umferðir. Prjónið þá allar lykkjur sléttar þar til stykkið mælist 13 cm (eða lengra ef vill).

Þá þarf að prjóna fyrir þumli.
Prjónið tvær lykkjur af fyrsta prjóni. Þá eru 8 næstu lykkjur prjónaðar með aukabandi. Setjið þær aftur yfir á prjóninn og prjónið með grifflugarninu.
Á seinni grifflunni er gert ráð fyrir þumli á sama hátt en þá á þriðja prjóni. Þá koma samskeyti á röndum í miðjan lófa.

Prjónið slétt prjón ca 3 cm til viðbótar. Þá eru prjónaðar 6 umferðir stroff og svo er fellt af.

Þumall:
Takið aukabandið úr og takið upp 8 lykkjur að framan (lófi), 8 lykkjur að aftan (fingur) auk 2-3 lykkja í hliðum. Skiptið lykkjunum á þrjá prjóna. Prjónið saman aukalykkjurnar í hliðunum þannig að þumallinn sé samtals 16 lykkjur. Prjónið þá ca 3 cm slétt prjón og fellið þá af.

Rendur eru prjónaðar þannig að til skiptis eru prjónaðar tvær umferðir með ljósu garni og tvær með dökku.
Samskeyti eru á miðjum lófa.

Frágangur:
Gangið frá endum. Þvoið grifflurnar úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið grifflurnar til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.