Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

laugardagur, 23. apríl 2011

Vorklæðnaður


Þó dagatalið sýni vor - og sumardagurinn fyrsti sé liðinn - þá er skítakuldi úti.
Og full þörf á því að klæða lítinn karl í ullarvesti.

Ég hef svolítið verið að prófa mig áfram -þegar ég prjóna úr Textíl-garninu tvöföldu - og setja saman tvo ólíka liti. Hér er einn þráður af Pale Oak og annar af Truffle og er ég bara ánægð með útkomuna.
Uppskriftin er eins og stundum - dálítil samsuða.

Grunnurinn er vesti sem ég prjónaði eftir uppskrift frá Ruth - en hugmynd að útfærslunni er úr desemberhefti Strikkemagasin (babyvest) en úr mun fínna garni.

Til minnis:

Textíl-garn: í vestið fara 85 gr af garni - rúmlega 40 gr af litnum Pale Oak og sama magn af Truffle
Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5

Útfærsla á vestisuppskrift:

Fitjið upp 108 l á prjóna nr. 5 og prjónið 4 garða
Tengið þá saman í hring, setjið prjónamerki til að merkja byrjun umferðar (sem er á annarri hlið) og setjið upp munstur
Prjónið 1sl, 2 br, 17 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 17 sl, 2 br, 1 sl -setjið prjónamerki (hér byrjar bakstykki) og endurtakið munstur frá framhlið.

Prjónið 17 cm þá er komið að undirbúningi ermagats.
Prjónið með garðaprjóni 4 lykkjur sitthvoru megin við prjónamerki (samtals 8 lykkjur í hvorri hlið) - Prjónið 4 umferðir -þannig að 2 garðar myndist undir hendi - skiptið þá í fram og bakstykki.

Framstykki: Fellið af fyrstu lykkju og prjónið næstu þrjár lykkjur með garðaprjóni - fylgið munstri þar til í lok prjóns þá eru prjónaðir þrjár lykkjur með garðaprjóni og seinasta lykkja felld af. Prjónið þar til framstykki mælist 21 cm þá er byrjað á hálsmáli. Hálsmálið er prjónað eins og er sýnt hér

Bakstykki: Fellið af og prjónið garða eins og lýst er í framstykki - fylgið munstri þar til bakstykki mælist 28 cm. Setjið þá 20 miðjulykkjur á band - og prjónið hvort axlastykki fyrir sig. Til að fá rúnning í hálsmálið er tekið úr 3svar - einu sinni í hverri umferð - þá eru samtals 14 lykkjur á hvorri öxl. Prjónið þar til axlastykkin mælast 3 cm. Þá má annað hvort fella lykkjurnar af - en mér finnst fallegra að setja þær á band og lykkja saman axlastykki á framstykki og bakstykki.

Hálsmál: takið upp lykkjur og og prjónið 4 garða. Fellið laust af.

Þvoið vestið í höndunum úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið vestið til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.

fimmtudagur, 21. apríl 2011

Bolero eða ermar

smellið á myndina til að stækka

Ég fór í saumaklúbb um daginn og hitti hana Gígju sem var með ótrúlega flotta útfærslu á ermum eins og við höfum verið að prjóna.

Og þó það er ekki rétt að kalla þetta útfærslu heldur er þetta algjörlega ný flík.
Og miklu frekar bolero en ermar.

En hún byrjar með því að prjóna ermar eins og venjulega - ja þær eru reyndar örlítið minni - en heklaður kragi sem getur líka snúið niður - breytir flíkinni heilmikið eins og sjá má á myndunum.

Og skoðið svo heklið framan á ermum og hvernig flíkin er ´lykkjuð´ saman með loftlykkjum.

Æðisleg flík sem Gígja var svo ljúf að leyfa mér að sýna hér ásamt uppskrift.

Til minnis

Gígju - bolero

Textíl-garn : litur Burnt Orange tæplega 3 dokkur (ca 130 gr) fyrir stærð S
Prjónar nr. 7
Heklunál nr. 4

Fitjað upp á prj. nr. 7 11o L, prjónað garðaprjón þar til stykkið mælist 46-50 cm (síddin á flíkinni). Heklaði svo uppfit og affellingu saman; 3 loftlykkjur í uppfit, krossað yfir í affellingu með fastapinna, 3LL yfir í uppfitina og svo koll af kolli. Alls í 17 cm.

Heklaði þröngar ermar framaná, einhvern veginn svona:

1. umf.: 64 fastapinnar í jaðar á erminni.

2. umf.: 3LL (fyrsti stuðull) 1 stuðull, 2LL 2st. Allt í sama fastapinnann frá 1. umf. Hoppið yfir 5 fastapinna. *2st. 2LL 2st* Endurtakið *-* út umferðina.

2. umferð er endurtekin 14 sinnum í viðbót, eða þar til ermin hefur náð æskilegri lengd.

Kragi heklaður eins og gert var framan á ermarnar, 15 umf. en aukið út með loftlykkjum á milli stuðlahópanna í 5. hverri umferð: 2st. 2LL 2st. 1LL í 4 umferðir. 2st 2LL 2 st 2 LL í 4 umferðir, og svo frv. Í 15. umferð eru loftlykkjurnar orðnar 5 á milli stuðlahópanna.

Hægt er svo að nýta ermarnar „réttar“ og á hvolfi, þá myndar kraginn einhvers konar skjuð á jakkann neðanverðan.

þriðjudagur, 19. apríl 2011

Strákapeysa

Hún Anna sem vinnur með mér prjónaði þessa peysu á ömmustrákinn sinn.
Litirnir eru dálítið óvenjulegir
grátt og brúnt og beis og sterkórans -
og mikið rosalega finnast mér þeir flottir

Ef þið viljið láta freistast þá er uppskriftina af peysunni að finna á heimasíðu Hendes Verden

Til minnis

Strákapeysa - uppskrift
Stærð: 4 ára

Textíl-garn: Í peysuna fara uþb 70 gr af hverjum lit: Pale Oak, Flannel Grey og Tobacco. Örlítið af Saffron. Samtals fara í peysuna 200 gr.

Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 4,5

mánudagur, 18. apríl 2011

Páskafrí



Ahh þá er loksins komið páskafrí.
Frí í heila 10 daga.

Og planið er að gera ekki neitt.
Alls ekkert...

... nema koma sér vel fyrir í sófanum og lesa fullt af krimmum

...og kannski klára vettlingana sem ég er búin að vera að prjóna og rekja upp til skiptis í nærri tvær vikur
... já og halda áfram með sjalið - ...og fjólubláu síðu peysuna - og finna út úr því hvort sú ljósgráa er algjört klúður
... og svo er smotterí sem ég er að sauma

... og vinda meira garn - við erum bara búin að vinna helminginn af nýju sendingunni.
Úbbs ég var nærri búin að gleyma að segja frá því að það er komin ný garnsending - og eins og áður get ég ekki hamið mig og er búin að bæta við fleiri litum.

... já og svo þarf að mála íbúðina en vorverk í garðinum frestast vegna snjókomu

... og uppfæra síðuna - ekki gleyma því - ég er með myndavélina fulla af afrekum myndarlegra kvenna í kringum mig - meira um það á morgun