Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

sunnudagur, 27. febrúar 2011

Ermar...

...eru afskaplega þægilegur fatnaður.

Þær er hægt að prjóna í mismunandi útfærslum, úr ólíkum litum og öllum stærðum. Nota má Textíl-garnið hvort sem er einfalt eða tvöfalt og prjónastærðin fer dálítð eftir smekk - og hversu létt og loftkennd flíkin á að vera.

Til að gera ermarnar enn líkari peysu er hægt að prjóna framan á ermagatið og lengja þannig ermarnar (sjá mynd neðar).

Og uppskriftin ætti ekki að vefjast fyrir neinum

Til minnis

Textíl-garn: 2 dokkur (100 gr)
Litur: efri mynd: Coffee
neðri mynd: Bokhara

Prjónar
nr. 7

Aðferð
Fitjið upp 120 lykkjur með einföldu garni á prjóna nr. 7. Prjónið garðaprjón úr tveimur dokkum af Textíl-garni og fellið af (rétt áður en garnið klárast alveg).

Þá eruð þið komin með ferhyrning sem er brotinn saman í helming. Saumið saman stuttu hliðar ferhyrningsins uþb 2/3 af lengdinni - en skiljið eftir uþb 1/3 af lengdinni fyrir hendur.

Fallegur frágangur fæst með því að sauma saman uppfit og affellingu frekar en jaðra.

Ef þið viljið lengri ermar þá má taka upp 35-40 lykkjur í ermagati og prjóna fram - eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Passar fínt að nota prjóna númer 3,5 - 4.

laugardagur, 26. febrúar 2011

Vesti

Ég skrapp niður í bæ í gær.
Úti var hráslagalegt um 3ja stiga hiti (sem er ekki svo slæmt í febrúar)- en líka rigning og rok.

Og fólk gekk ekki á milli staða heldur setti undir sig hausinn og hljóp...
... eða kannski fauk það bara.

Og í dag er snjóföl yfir öllu.

En það er vetur og maður þarf að vera tilbúinn fyrir hvaða veður sem er.
Og nauðsynlegt er að gæta að klæðnaði þeirra litlu, því vindurinn og kuldinn smjúga alls staðar.

Þá er fátt betra en notalegt og hlýtt ullarvesti. Vesti sem er einfalt og tekur aðeins kvöldstund að prjóna.

Kostur við vestið er að það er prjónað með stroffprjóni (þ. e. tvær lykkjur sléttar og tvær brugðnar) og bókstaflega vex með barninu. Uppskriftin er einföld og þægileg að prjóna eftir auk þess að vera ágætis dönskuæfing.

Til minnis:

Textíl-garn: 70-75 gr
Litur: Ljósgrænn (ekki til lengur)

Munstur: Nærbolur Ruth
Prjónar: Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5.

Breytingar á uppskrift:
Garnið sem gefið er upp í uppskriftinni er fínna en tvöfalda Textíl-garnið.
Í vesti fyrir eins til tveggja ára passar að fitja upp 54 lykkjur eins og er í minnstu stærðinni.
Lengja svo bolinn - og prjóna 21 cm áður en byrjað er á tölulista að framan.
Að öðru leyti er uppskriftinni fylgt.



mánudagur, 21. febrúar 2011

Mér finnst lopapeysa ...

...vera skyldueign.

En hún þarf ekkert endilega að vera úr lopa.

Það er til dæmis alveg tilvalið að prjóna hana, eins og samstarfskona mín gerði, úr mjúku Textíl-garni í fallegum gráum lit, með bláu, rauðu og hvítu munstri. (Ja eða í þeim litum sem ykkur finnast fallegastir).

Þá er bara að fletta lopablöðunum, finna léttlopamunstur og prjóna í réttri stærð.
Koma sér þægilega fyrir í sófanum, með kaffibollann innan seilingar og spennumynd í sjónvarpinu eða músik í iPodinum.
Fitja upp...


Til minnis
:

Textíl-garn:
aðallitur - Flannel Grey u.þ.b.70 gr
í munstur: Indigo u.þ.b. 30 gr, Ecru u.þ.b. 25 gr, Carmine 15-20 gr

Uppskrift: Kambur úr: LOPI 28, stærð 3ja ára
Hringprjónar og sokkaprjónar nr. 4,5

Þvoið peysuna í höndunum úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið peysuna til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.

sunnudagur, 20. febrúar 2011

Komnir aftur


Ég vildi bara láta ykkur, sem biðuð, vita...

.... að fjólublái liturinn - þessi ljósari (Crocus),

rauði liturinn (Carmine)

og ljósasti brúni liturinn (Truffle)

eru komnir í hús.

Ójá.

mánudagur, 7. febrúar 2011

Treflar og treflar



Þessir hringtreflar hafa aldeilis vakið lukku.

Ég prjónaði á mig og gaf svo nokkra í jólagjafir og það sama gerðu prjónarar í kringum mig.

Hér má sjá nokkrar útfærslur, í mismunandi litum og prjónaðar af ólíkum aðilum...
...(takk stelpur fyrir að leyfa mér að sýna verkin ykkar).

Uppskriftin er eiginlega alltaf sú sama - eins og hún er sýnd í dökkgráa treflinum eða eins og hún er útfærð í þeim hvíta.

Til minnis:

Í trefilinn fara um 100 gr, það er 2 dokkur af Textil-garni
Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5, 6 eða 7 - (eftir smekk).

Og takið eftir hvað litirnir eru flottir.

Í þessa trefla eru notaðir litirnir hvítt (Ecru), rautt (Carmine) og grænt (Calypso).

sunnudagur, 6. febrúar 2011

Litir uppfærðir

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá alla liti sem nú eru til í Textíl-garni.

Ef smellt er á myndina sést hún stærri og litirnir greinilegri.

Athugið þó að litir á tölvuskjá eru aldrei alveg eins og í raunveruleikanum.

Gular legghlífar

Ég rakst á uppskrift fyrir jól af gulum legghlífum.

Stóðst ekki mátið og fannst enginn annar litur koma til greina en sterkgulur.

Dóttirin var fljót að eigna sér legghlífarnar - og fannst þær bráðnauðsynleg viðbót í vetrarfataskápinn.

Og ekki eru þær notaðar minna núna í öllum þessum snjó.

Til minnis:

Textil-garn: 85 grömm
Litur: Sunrise
Prjónað úr tvöföldu garni

Uppskriftin heitir Waterlily Leg Warmers og er ótrúlega þægileg,
sami lykkjufjöldi er alla leið en mismunandi vídd fæst með misgrófum prjónum (stærð 4, 5 og 6)

laugardagur, 5. febrúar 2011

Og svo kom garnið...

...eftir laaanga bið.

Mikið var ég fegin.
Ég átti nefnilega vandræðalega lítið til á lagernum.

En nú er garnið komið í hús og seinasta vika (já eða tvær) hefur farið í að vinda í dokkur.

Um eða eftir helgi set ég inn nýtt litaspjald því eins og þið sjáið þá eru komnir splunkunýir litir.

Og maður minn hvað þeir eru fallegir.