Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

laugardagur, 26. október 2013

Húfuveður


Undanfarna daga hef ég prjónað húfur. Margar margar húfur. 
Mér finnst það með ólíkindum hver húfuþörfin er á þessu heimili.

Annars er húfuprjón svolítið skemmtilegt. Það er einfalt og fljótlegt og ekki svo garnfrekt ..og oftast næ ég að grynnka aðeins á afgangakassanum. Sem er auðvitað ótrúlega góð tilfinning.

 

Í þessar húfur, eða kollur, fara rétt um 40 gr af SuperSoft. Ég þarf ekki nema ca. 20 gr af lit því oftast set ég saman tvo líka liti sbr. bláu og fjólubláu húfurnar hér fyrir ofan. Hringprjónar nr. 4 eða 4,5 eftir því hversu þétt prjónið á að vera. Og uppskriftin er sáraeinföld (sjá neðar).

Til minnis:

Ca. 40 gr af SuperSoft Textílgarni
Hringprjónar nr. 4,5

Aðferð:  

Fitjið upp 95 lykkjur og prjónið stroff í hring (3 sl og 2 br).
Prjónið þar til húfan mælist 13-17 cm, hér verðið þið að ákveða lengdina því það er ótrúlega mismunandi er hvað fólki finnst vera passleg húfustærð. Húfurnar hér fyrir ofan eru allar frekar stuttar 13-15 cm að úrtöku. Úrtakan er svo ca. 7 cm.

Úrtaka: byrjið á að fækka sléttu lykkjunum, takið saman miðlykkju og slétta lykkju til vinstri.
Prjónið 4 umferðir - ath. að nú eru sl lykkjurnar tvær og br lykkjurnar tvær. Samtals 76 l.
Í næstu umferð er úrtaka, þá fækka ég br lykkjunum og prjóna saman br lykkju við fyrri sléttu lykkjuna (en auðvitað má líka prjóna 2 br lykkjurnar saman).
Prjónið 3 umferðir - ath. nú er sl lykkjurnar tvær og ein brugðin lykkja. Samtals 57 l.
Úrtaka: prjónið sl lykkjurnar saman
Prjónið 2 umferðir - ath. nú eru lykkjurnar 1 sl og 1 br. Samtals 38 l.
´Úrtaka: takið saman tvær og tvær lykkjur.
Prjónið 1 umferð - ath nú eru allar lykkju sléttar. Samtals 19 l.
Úrtaka: takið sama tvær og tvær lykkur og þá eru 9-10 lykkjur eftir á prjóninum, slítið frá og dragið í gegn.

Og þá er bara eftir að ganga frá endum og þvo húfuna.
Ég þvæ húfurnar úr ylvolgu vatni og með dálítilli sápu (ég set sápu tvisvar og skola á milli), kreisti úr henni vatnið, og legg á handklæði og svo er bara að fitja upp á nýrri meðan beðið er eftir að þessi þorni.

laugardagur, 14. september 2013

Sumarbústaðaprjón

Ég fór í sumarbústað í sumar með stórfjölskyldunni. Í heila viku.
Fyrri hluta vikunnar var prýðis lestrar- og handavinnuveður ..en svo brast á með sól og 20° hita.

Ég var ágætlega undirbúin fyrir lesturinn og handavinnuna, með bókastafla og stóran kassa af mismunandi garni  - ásamt prjónum og heklunálum í viðeigandi númerum.

En þar sem ég hafði alls ekki gert ráð fyrir góðu veðri hafði léttari fatnaður orðið eftir heima. Sólbaðsúthald var því takmarkað og reyndist seinni hluti vikunnar líka drjúgur til inniverka.

Sjalið  á myndinni er eitt af því sem ég heklaði en það heitir Over the Willamette. Uppskriftina er hægt að kaupa á Ravelry - hræbillegt.
Sjalið er heklað úr tveimur þráðum, SuperSoft og Önnugarni, og í það fara samtals um 180 gr.

Til minnis:
Uppskrift: Over the Willamette
Textílgarn SuperSoft og Önnugarn,  amk 5 bláir litir, tvinnaðir saman, samtals ca 180 gr.
heklunál nr. 4