Textílgarn: SuperSoft er úr 100% ull. Í því er spunaolía sem fer úr við þvott og skilur garnið eftir sérlega mjúkt. Handþvoið. Í 50 gr dokku eru 287 m. Garnið er til sölu í 50 gramma dokkum á 600 krónur. Önnugarn er úr 55% merinoull og 45% bómull. Í 50 gr dokku eru 350 m sem kosta 750 kr. Handþvoið.
Hafið samband við Önnu á netfanginu annabsv hjá gmail.com

sunnudagur, 13. mars 2011

Vestið Clara

Ég skoða töluvert af dönsku prjónabloggi og það var á einhverju þeirra sem ég rakst fyrst á þetta vesti sem heitir Clara. (Reyndar held ég að allflestir Danir sem prjóna á annað borð hafi prjónað vestið.)

Mér fannst vestið ferlega flott - sérstaklega berustykkið og lagðist því í leit að uppskriftinni.

Á heimasíðu
Isager Strik er uppskriftin til sölu ásamt garni.
(Athugið þó að ekki er hægt að greiða með kreditkorti heldur þarf greiðsla að fara fram í gegnum banka.)

Á ravelry er vísað í fría uppskrift af vesti/kjól sem heitir Autumn Leaves og er með mjög áþekku munstri og er í berustykki Clöru.

Og svo rakst ég á þessa uppskrift af dúkkukjól á vefsíðu Familie Journalen. Og ég fæ ekki betur séð en að það sé nákvæmlega sama berustykki.

Svo nú er bara að finna prjóna, velja lit og fitja upp.

Til minnis:

Textíl-garn: uþb 100 gr
Litur: Carmine
Prjónar: Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5.

Uppskrift:
Clara (ath. þarf að panta frá Danmörku - uppskrift kostar)
eða stækkið uppskrift af dúkkukjól
eða Autumn Leaves

Ath: Í vesti fyrir þriggja ára fitja ég upp 110 lykkjur og prjóna 10 umferðir perluprjónskant. Bolur að handvegi er 23 cm.


sunnudagur, 6. mars 2011

Ný sending


Í vikunni fékk ég nýja sendingu af garni, sem nú er búið að vinda í dokkur.

Ég á því nóg til af svörtu, gráu og hvítu...
..ja í bili að minnsta kosti.



Af brúnu litunum fékk ég Coffee (vonandi kemur Tobacco næst) og svo
splunkunýjan ofsalega fallegan kanilbrúnan lit sem heitir Cinnamon.
Mér líst ægilega vel á hann.


Sterkbleiki (Peony) liturinn er loksins til aftur sem og sá blágræni (Robins Egg).


Ég er að prufa mig áfram með ljósa liti og er spennt að heyra hvað
ykkur finnst um nýja Almond litinn.


Því miður fékk ég ekki litina Aubergine, Saffron, Ember, Cloudberry og Red Clover. En á von á að þeir komi með næstu sendingu.

miðvikudagur, 2. mars 2011

Lopapeysan Freyja

Þessa útgáfu af lopapeysunni Freyju prjónaði einn vinnufélagi minn.
Peysan sjálf er prjónuð úr lopa - en munstrið er prjónað með tvöföldu Textíl-garni.
Skemmtileg samsetning - þar sem Aubergine liturinn nýtur sín einstaklega vel með ljósgráum lopanum.

Hún Ragnheiður Eiríksdóttir á Knitting Iceland á heiðurinn af hönnuninni - en hægt er að nálgast uppskriftina frítt á netinu.

Til minnis:

Stærð S
Garn: Í aðallit er einfaldur plötulopi í ljósasta gráa litnum- uþb 200 gr og í munstur eru uþb 20-25 gr Textíl-garn í litnum Aubergine

Prjónar: Hringprjónar og sokkaprjónar nr. 4,5

Uppskrift: Freyja Ragnheiðar Eiríksdóttur á Knitting Iceland


þriðjudagur, 1. mars 2011

Kragi

Pimlico heitir uppskriftin af þessum fallega græna kraga sem hún vinkona mín prjónaði.

Uppskriftina er að finna á ravelry.com - en ravelry er prjóna- og heklusamfélag á netinu þar sem er að finna ógrynni uppskrifta og alls konar hugmynda. Já eiginlega allt sem hugurinn girnist. En vefurinn byggist á framlagi einstaklinga sem deila handavinnuáhuga.

Ég vil endilega hvetja ykkur til að skrá ykkur ef þið eruð ekki nú þegar meðlimir.
Og ekki síður benda ykkur á að nota tækifærið og skrá það sem þið eruð að vinna og hafið búið til. Því það er ótrúlega þægileg leið til að halda utan um handavinnuna sína og fríska upp á minnið hvað maður hefur gert í gegnum tíðina - rifja upp garntegundir og prjónastærðir og fleira í þeim dúr.

En aftur að kraganum

Til minnis:

Textíl-garn: 50 - 60 grömm
Litur: Larch
Prjónar: hringprjónar nr. 3,5

Uppskrift: Pimlico