
Já og meira að segja líka inni í bílnum.
Nú fer sko ekkert á milli mála að það er kominn tími á vettlinga og trefla.
Um daginn prjónaði ég mér grifflur úr Textíl-garninu. Grifflur eru auðvitað, eins og allir vita, mun þægilegri en vettlingar í bílinn. Og í þær fer alveg ótrúlega lítið garn.
Og svona er uppskriftin:
Grifflur:
Uppskrift til útprentunar (pdf-skjal á Scribd)
Uppskrift til útprentunar (pdf-skjal á Google Docs)
Textíl-garn ca 20 grömm
Aðallitur Moorland, rendur Sunrise (litur ekki kominn)
Prjónar nr 3
Fitjið upp 48 lykkjur og skiptið þeim jafn niður á fjóra prjóna. Prjónið í hring stroff, eina lykkju slétt og eina brugðna til skiptis 6 umferðir. Prjónið þá allar lykkjur sléttar þar til stykkið mælist 13 cm (eða lengra ef vill).
Þá þarf að prjóna fyrir þumli.
Prjónið tvær lykkjur af fyrsta prjóni. Þá eru 8 næstu lykkjur prjónaðar með aukabandi. Setjið þær aftur yfir á prjóninn og prjónið með grifflugarninu.
Á seinni grifflunni er gert ráð fyrir þumli á sama hátt en þá á þriðja prjóni. Þá koma samskeyti á röndum í miðjan lófa.
Prjónið slétt prjón ca 3 cm til viðbótar. Þá eru prjónaðar 6 umferðir stroff og svo er fellt af.
Þumall:
Takið aukabandið úr og takið upp 8 lykkjur að framan (lófi), 8 lykkjur að aftan (fingur) auk 2-3 lykkja í hliðum. Skiptið lykkjunum á þrjá prjóna. Prjónið saman aukalykkjurnar í hliðunum þannig að þumallinn sé samtals 16 lykkjur. Prjónið þá ca 3 cm slétt prjón og fellið þá af.
Rendur eru prjónaðar þannig að til skiptis eru prjónaðar tvær umferðir með ljósu garni og tvær með dökku.
Samskeyti eru á miðjum lófa.
Frágangur:
Gangið frá endum. Þvoið grifflurnar úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið grifflurnar til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.

Takk fyrir :)
SvaraEyða