Það fór að snjóa í vikunni og ég hef þurft að skafa af bílrúðum bæði kvölds og morgna.
Svona veður kallar á nýja vettlinga.
Eflaust kunna flestir einfalda grunnuppskrift að vettlingum sem þeir nota, en ég læt mína uppskrift fylgja með hér fyrir neðan.
Núna er ég dálítið hrifin af einföldum vettlingum sem skreyttir eru með útsaumi og hef rekist á hugmyndir af slíku víða á netinu.
Útsaumur Liselotte var kveikjan að minni útfærslu.
Á Knitting Iceland má svo sjá eina hugmynd og á ravelry.com eru enn fleiri.
Svona útsaumur er bara skemmtilegur.
Vettlingar
Prenta uppskrift (pdf-skjal Google Docs)
Textíl-garn ca 35-40 grömm
Litur Pale Oak, örlítið af Denim lit
Prjónar nr 4,5
Ath: Fitjað er upp með Denim-lit en svo er skipt í aðallit sem allur vettlingurinn er prjónaður með.
Fitjið upp 36 lykkjur og skiptið þeim niður á fjóra prjóna. Prjónið í hring stroff, eina lykkju slétt og eina brugðna til skiptis 8 cm (25 umferðir). Næsta umferð er prjónuð slétt og þá er tveimur lykkjum aukið í, einni í lok annars prjóns og annarri í lok fjórða prjóns.
Prjónið allar lykkjur sléttar þar til stykkið mælist 6 cm (17 umf).
Þá þarf að prjóna fyrir þumli.
Prjónið eina lykkju af fyrsta prjóni. Þá eru 6 næstu lykkjur prjónaðar með aukabandi. Setjið þær aftur yfir á prjóninn og prjónið með aðallit.
Á seinni vettlingi er gert ráð fyrir þumli á sama hátt en þá í lok annars prjóns.
Prjónið slétt prjón ca 9,5 cm til viðbótar (25 umf).
Úrtaka:
Fyrsti prjónn: fyrsta lykkja tekin óprjónuð, næsta lykkja prjónuð og fyrri lykkju er steypt yfir.
Annar prjónn: tvær síðustu lykkjur á prjóni eru prjónaðar saman.
Þriðji prjónn er prjónaður eins og sá fyrsti og fjórði prjónn eins og annar prjónn.
Þetta er endurtekið í hverri umferð þar til 6 lykkjur eru eftir á prjónunum. Þá er bandið slitið frá og endinn dreginn í gegnum lykkjurnar.
Þumall:
Takið aukabandið úr og takið upp 6 lykkjur að framan (lófi), 6 lykkjur að aftan (fingur) auk 2-3 lykkja í hliðum. Skiptið lykkjunum á þrjá prjóna. Prjónið saman aukalykkjurnar í hliðunum þannig að þumallinn sé samtals 14 lykkjur. Prjónið þá ca 5 cm (15 umf) slétt prjón.
Úrtaka á þumli er gerð eins og á vettlingnum.
Frágangur:
Saumið munstur á handarbak, eins og ykkur lystir, með keðjuspori eða krosssaumi.
Gangið frá öllum endum. Þvoið vettlingana úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið vettlingana til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli