
Og full þörf á því að klæða lítinn karl í ullarvesti.
Ég hef svolítið verið að prófa mig áfram -þegar ég prjóna úr Textíl-garninu tvöföldu - og setja saman tvo ólíka liti. Hér er einn þráður af Pale Oak og annar af Truffle og er ég bara ánægð með útkomuna.

Grunnurinn er vesti sem ég prjónaði eftir uppskrift frá Ruth - en hugmynd að útfærslunni er úr desemberhefti Strikkemagasin (babyvest) en úr mun fínna garni.
Til minnis:
Textíl-garn: í vestið fara 85 gr af garni - rúmlega 40 gr af litnum Pale Oak og sama magn af Truffle
Prjónað úr tvöföldu garni á prjóna nr. 5
Útfærsla á vestisuppskrift:
Fitjið upp 108 l á prjóna nr. 5 og prjónið 4 garða
Tengið þá saman í hring, setjið prjónamerki til að merkja byrjun umferðar (sem er á annarri hlið) og setjið upp munstur
Prjónið 1sl, 2 br, 17 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 2 sl, 2 br, 17 sl, 2 br, 1 sl -setjið prjónamerki (hér byrjar bakstykki) og endurtakið munstur frá framhlið.
Prjónið 17 cm þá er komið að undirbúningi ermagats.
Prjónið með garðaprjóni 4 lykkjur sitthvoru megin við prjónamerki (samtals 8 lykkjur í hvorri hlið) - Prjónið 4 umferðir -þannig að 2 garðar myndist undir hendi - skiptið þá í fram og bakstykki.
Framstykki: Fellið af fyrstu lykkju og prjónið næstu þrjár lykkjur með garðaprjóni - fylgið munstri þar til í lok prjóns þá eru prjónaðir þrjár lykkjur með garðaprjóni og seinasta lykkja felld af. Prjónið þar til framstykki mælist 21 cm þá er byrjað á hálsmáli. Hálsmálið er prjónað eins og er sýnt hér
Bakstykki: Fellið af og prjónið garða eins og lýst er í framstykki - fylgið munstri þar til bakstykki mælist 28 cm. Setjið þá 20 miðjulykkjur á band - og prjónið hvort axlastykki fyrir sig. Til að fá rúnning í hálsmálið er tekið úr 3svar - einu sinni í hverri umferð - þá eru samtals 14 lykkjur á hvorri öxl. Prjónið þar til axlastykkin mælast 3 cm. Þá má annað hvort fella lykkjurnar af - en mér finnst fallegra að setja þær á band og lykkja saman axlastykki á framstykki og bakstykki.
Hálsmál: takið upp lykkjur og og prjónið 4 garða. Fellið laust af.
Þvoið vestið í höndunum úr volgu vatni og sápu. Kreistið vatnið úr, frekar en vindið. Lagið vestið til (sléttið) og þurrkið t.d. á handklæði.
